149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:18]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er gildishlaðin spurning, stórt er spurt. Loftslagsmál hafa verið mikið í deiglunni og umræðu manna og fjölmiðla undanfarið. Þau eru vandamál heimsins. Vissulega er margt í þeirri umræðu gott og gilt en annað sem ýmsir fræðimenn telja að sé orðum aukið og eigi kannski ekki við rök að styðjast. En til að svara spurningunni um það hvers vegna sá flokkur sem hvað mest hefur verið umhugað um umhverfismál taki þessa afstöðu dettur mér helst í hug að röksemdafærslan gæti verið að það væri á ábyrgð okkar Íslendinga að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þ.e. að fórna megi náttúru Íslands til að vera í liðinu sem bjargar loftslagsmálum heimsins. Það má spyrja sig að því hvort það sé rökrétt niðurstaða, hvort það verði þúfan sem veltir hinu þunga hlassi. Ég er ekki viss um að það sé, né heldur hvort þörfin sé svo brýn að um muni.

En hitt er alveg ljóst og rétt, sem kom fram í máli hv. þingmanns, að Íslendingar framleiða um tífalt meiri hreina orku og hafa virkjað meira en aðrar þjóðir. Sá skortur á hreinni orku sem er í Evrópu verður tæplega á ábyrgð Íslendinga.