149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi ábyrgð okkar Íslendinga hefur því verið lýst úr þessum ræðustól sem og í fjölmiðlum, af fylgismönnum þessarar innleiðingar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi gagnast okkur Íslendingum mjög og hafi orsakað mikla velsæld. Ég ætla ekki að mæla á móti því en í framhaldinu hefur verið sagt að nú sé komið að því að við kyngjum því súra með því sæta, þ.e. að þó að við þurfum að beygja okkur undir það að þetta sé ekki alveg gott sé það gert í þeim tilgangi að þakka fyrir það sem við höfum fengið með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Til að svara spurningunni, herra forseti, held ég að (Forseti hringir.) Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé ekki búin að gera sér fulla grein fyrir því hvað þetta gæti kostað íslenska náttúru.