149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú er klukkan orðin hálfsex og ég reikna með því að forseti miði við að hér verði fundi fram haldið til svipaðs tíma og í gær, sem sagt langleiðina til kl. 9 með það í huga að nefndafundir hefjist kl. 9. Ef einhver önnur plön eru uppi hjá hæstv. forseta væri áhugavert að fá að heyra af þeim upp á skipulag að gera. Annars gerum við ráð fyrir því að fundur standi til sama tíma og í gær.

Það sem mig langaði einnig að spyrja um er hvort eitthvað sé að frétta af ferðum utanríkisráðherra, hvort hann sé væntanlegur og verði mögulega með okkur hér í umræðum þegar þær hefjast aftur að afloknum nefndastörfum um miðjan dag. Það er orðið ansi langt síðan hæstv. forseti var spurður þessara spurninga. Mig langar til að fá það upplýst hvort eitthvað liggi fyrir í þeim efnum og sömuleiðis hvort hæstv. iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir muni mæta hér. Þó að málið sé ekki hennar tengist hún þeim málum sem eru undirliggjandi í þriðja orkupakkanum. Hæstv. forseti mætti bæta því á (Forseti hringir.) verkefnalistann að forvitnast um hvort hún væri fáanleg til viðræðna hér síðar þegar líður á daginn.