149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem talað hafa á undan mér að fengur væri að því ef stjórnarliðar sæju sér fært að koma til fundar við okkur og skiptast á skoðunum um þetta stóra mál sem skiptir okkur öll máli. Ég vona, eins og hér hefur einnig komið fram að það hafi ekki farið fram hjá hæstv. forseta að hér koma fram í sífellu nýjar og dýpri upplýsingar um þetta mál. Það kemur fram betur og betur hversu illa undirbúið málið er. Þess vegna held ég að það væri mikill fengur að því að fá í salinn einhverja af þeim stjórnarliðum sem eru í húsi, t.d. formann utanríkismálanefndar.

Einnig kom fram í ræðum fyrr í morgun eða í nótt að það er orðin veruleg stefnubreyting hjá hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) gagnvart þessu máli. Það hefði líka verið, held ég, mjög nauðsynlegt að hann kæmi hér og gerði grein fyrir þeim hugarfarsbreytingum sem hann hefur orðið fyrir í þessu máli á stuttum tíma.