149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hér hefur komið fram, óskir um að fyrir liggi hvernig umræðunni verður háttað hér síðar í dag þar sem við höfum óskað eftir því að hingað komi ráðherra málaflokksins og svari spurningum sem brenna á okkur í þessum efnum. Mikilvægum spurningum er enn ósvarað að okkar mati. Ég nefni t.d. álitsgerð sem ráðuneytið fékk eftir Baudenbacher. Auk þess tel ég nauðsynlegt að umhverfisráðherra komi hingað og svari ákveðnum spurningum. Í umræðunum hafa komið fram áhyggjur þingmanna af umhverfismálum þegar kemur að þessum orkupakka, umhverfismálum Íslands vegna þess að vísbendingar eru um að fram undan sé stórfelld uppbygging (Forseti hringir.) í raforkuframleiðslu í landinu. Það kemur fyrst og fremst niður á náttúru landsins og er nauðsynlegt að umhverfisráðherra komi inn í þá umræðu.