149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á sjónarmiðum Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings. Hv. þingmaður ræddi um innleiðinguna og ýmis álitamál sem henni tengjast. Mig langar til að grípa niður í ritið „EES-réttur og landsréttur“ eftir prófessor dr. Davíð Þór Björgvinsson. Á bls. 88–89 er m.a. fjallað um innleiðingu reglugerða. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun um það hvort rétt sé að leiða reglugerð í lög með almennum lögum eða almennum stjórnsýslufyrirmælum gilda almenn lögfræðileg sjónarmið.“

Áfram segir:

„Í framkvæmd er miðað við að fyrst sé gengið úr skugga um hvort unnt sé að leiða reglugerð í lög með almennum stjórnsýslufyrirmælum og hvort nægileg heimild sé til þess í almennum lögum.“

Áfram segir:

„Reglugerðir í EES-rétti eru, með hliðstæðum hætti og í ESB-rétti, þær afleiddu réttargerðir sem hafa mesta þýðingu, að því er varðar efni, gildissvið og réttaráhrif, þar sem skyldan tekur til þess að taka þær sem slíkar upp í landsrétt samningsaðila.“

Síðan víkur Davíð Þór Björgvinsson að eftirfarandi:

„Dæmi um lögfestingu reglugerða eru lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 47/1993.“

Nú liggur það fyrir að áform eru uppi um að hina umdeildu reglugerð, 713, eigi að innleiða í íslenskan rétt með reglugerð gefinni út af iðnaðarráðherra. Maður spyr: Hvaða skýringar liggja fyrir á því að valið er að innleiða þessa umdeildu gerð með stjórnsýslufyrirmælum, reglugerð í þessu tilfelli, frekar en með almennum lögum?