149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem er veigamikið innlegg inn í það sem við höfum verið að ræða. Við höfum einmitt spurt okkur þessarar spurningar: Hvers vegna, hvað á ég að segja, er veikasta úrræðið notað til að innleiða þessa stóru mikilvægu gerð, að ég tali nú ekki um hvers vegna í ósköpunum er vitnað til reglugerðar, ósettrar reglugerðar, við innleiðingu þessa stóra máls? Þá kemur að því sem þessi góði lögfræðingur, Eyjólfur Ármannsson, segir, eins og ég las upp á bls. 2, með leyfi forseta:

„Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðrar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“

Þetta er náttúrlega algjör áfellisdómur að mínu áliti og í sjálfu sér kemur þetta heim og saman við önnur lögfræðiálit sem höfðu komið fram um að ákveðinn vafi léki á því hvort innleiðingin eða reglugerðin eins og hún liggur fyrir, þ.e. þessi pakki, stæðist stjórnarskrá og ekki væri vafa undirorpið að þarna væri farið fram með mjög stórkostlegt valdframsal til erlendrar skipulagsheildar.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er í sjálfu sér ekki skiljanlegt að menn skuli fara akkúrat þessa leið við innleiðingu gerðarinnar.