149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:46]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það eru sem sagt uppi tvær aðferðir til að innleiða þessar gerðir. Önnur er sú sem ég vitnaði til varðandi innleiðinguna á — hvar var ég? Það var þetta dæmi. Já, dæmi um lögfestingu reglugerða eru lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lög nr. 47/1993. Annað dæmi er lögfesting mannréttindasáttmála Evrópu og fleiri dæmi eru rakin. En höfundur segir efnislega: Mun algengara er að þessar gerðir séu innleiddar með reglugerð. Gott og vel.

Nú stendur þannig á að þessi reglugerð sem liggur fyrir í drögum og hefur verið send alþingismönnum í tölvupósti — að vísu hefur hún ekki borist mér í tölvupósti heldur barst hún mér eftir öðrum leiðum — er sérstök að því leyti til að þar er sérstakur fyrirvari í átt við það sem rætt hefur verið um í þessu máli. Þegar af þeirri ástæðu, ef þessi fyrirvari á einhverja möguleika til að hafa einhverja verkan, einhverja þýðingu, sem reyndar sýnist borin von, hefði maður búist við að þessi innleiðing væri gerð með lögum. Og úr því að menn eru á annað borð að leggja það á sig að dreifa þessu plaggi, drögum að innleiðingarreglugerð, spyr maður af hverju engar skýringar fylgja á því hvers vegna sú leið er valin að innleiða með reglugerð frekar en með lögum úr því að ýmist er uppi, og af hverju engar skýringar eða nein umfjöllun eða nein greining er á þessum fyrirvara og möguleikum hans til að hafa áhrif á gang mála.