149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta gæti einmitt verið mergurinn málsins og gæti verið ástæðan fyrir því hvernig þetta mál er búið, þ.e. að menn hafi verið búnir að ákveða, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra í þessu tilfelli, að málið kæmi fram í haust en af einhverjum ástæðum hafi síðan verið skipt um hest í miðri á og menn hafi hugsað: Nei, við þurfum að koma þessu máli fram núna. Þaðskýrir kannski og varpar ljósi á það hvers vegna þetta mál er eins illa búið og það er.

Það er svo margt í málinu sem ber vott um ákveðna örvæntingu. Síðasta vendingin í því er hingaðkoma prófessors dr. Carls Baudenbachers sem er kallaður hingað á síðustu stundu til að gefa, að því er virðist, eitthvert þóknanlegt álit á málinu. Víst er að í upphaflegu áliti þeirra ágætu fræðimanna, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, berjast þeir um á hæl og hnakka, skiljanlega, við að láta ekki draga sig út í pólitík. Þeir fá ábendingu um að gera hlutina einhvern veginn öðruvísi en gefið er í upphafi frá ráðuneytinu. Ég er ekki að segja að þeir hafi verið beittir þrýstingi en gefið er í skyn að það þurfi að gera þetta öðruvísi, sem þeir gera. Ég er ekki að draga úr heiðarleika eða fræðimennsku þessara manna, síður svo, en allt ber að þeim brunni að menn hafa verið í því að leita að þóknanlegri niðurstöðu allan tímann, á hlaupum, og þess vegna er málið útbúið eins og það er nú.