149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:56]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að sennilega hafi ætlunin verið að nota tímann og rýna málið betur og taka það upp að hausti þá er ein staðreynd sem ég staldra alltaf við aftur og aftur í hugleiðingum mínum — af hverju er þessi asi, af hverju má málið ekki bíða fram á haust? — og það er dagsetningin 23. september. Þann dag mun stjórnlagadómstóll Noregs skila af sér niðurstöðu um það hvort Noregur geti innleitt og komist fram hjá þeim stjórnskipulega fyrirvara sem þeir settu strax í sameiginlegu EES-nefndinni. Ef hægt er að koma Íslandi á þann stað að aflétta þeim stjórnskipulega fyrirvara eða hreinlega ganga gegn honum — vera þá í þeirri stöðu að hafa innleitt hann á rangan hátt, hafa fest þá innleiðingu í lög þrátt fyrir að það gangi gegn stjórnarskránni og búa sér þá ákveðna skuldbindingu að þjóðarétti — væri þá ekki auðveldara að setja enn meiri þrýsting á Norðmenn sem myndi henta Evrópusambandinu?

Ég skil alveg að Evrópusambandið fylgi eftir af fullum þunga og hörku markmiðum sínum og stefnu og geri það með öllum tiltækum ráðum. Ég get alveg skilið það. Það eru mikilsverðir hagsmunir undir. Ég tel að þetta sé kannski þungamiðjan í þessu og varpa (Forseti hringir.) því til hv. þingmanns hvort hann skilji það sem svo að þetta geti verið vendipunktur í málinu, dagsetningin 23. september.