149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, víst getur verið að svo sé. En ég hef líka staldrað við annað í þessu máli. Við höfum heyrt frá fleiri en einum og fleiri en tveimur að þetta mál henti ekki. Það henti ekki til að vera fyrsta mál sem er hafnað, akkúrat þetta mál henti ekki til þess. Nú hefur engin skýring komið á því, alla vega ekki svo að ég hafi heyrt eða skilið eða keypt. Hvers vegna er þetta mál ekki rétta málið? Hver er ástæðan fyrir því? Hver er skýringin á því? Ég get ekki ímyndað mér það. Er málið of flókið eða of stórt? Það færi þá í blóra við það sem menn hafa sagt, þ.e. að málið skipti engu máli, það sé ekkert í þessu. Hvers vegna er þetta þá rangt mál til þess að senda fyrir sameiginlegu EES-nefndina?

Ef það skiptir engu máli, ef það er léttvægt, er þetta þá ekki alveg, afsakið orðbragðið, herra forseti, dúndurprófmál, fyrst þetta er svona léttvægt og skiptir svona litlu máli? Ég hefði haldið það. Og hver er þá áhættan ef þetta er svona léttvægt og skiptir svona litlu máli? Hver er þá áhættan, herra forseti, fyrir okkur? Prófessor dr. Carl Baudenbacher sagði: Evrópusambandið verður örugglega öfugsnúið, snýst öndvert við, ef Íslendingar gera þetta. Já, við væntum þess. Við höfum lent í svona snerrum áður og við gengum út í þær snerrur með opin augun, vissum að við yrðum ekki vinsælasta stelpan á ballinu fyrir að vera með mótþróa. En við höfum haft nokkurn sigur á nokkrum stöðum og eins og fram hefur komið í nótt og í morgun og í gærkvöldi þá er stundum bara ágætt að segja: Nei. Það hefur stundum hinar ágætustu afleiðingar ef menn segja nei en láta hlutina ekki yfir sig ganga sama hvað á dynur.