149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Eins og forseti hefur sjálfsagt tekið eftir var ég byrjaður að ræða um stöðu Kýpur í tengslum við þriðja orkupakkann og tengingu landsins við evrópska orkunetið um sæstreng. Ég hafði ekki náð að ljúka þeirri umfjöllun og hyggst nú gera það en gera þó smáhlé á þeirri yfirferð til að fjalla um hreint út sagt stórkostlegt viðtal sem ég las við hæstv. fjármálaráðherra, frábært viðtal, eitt albesta viðtal sem hæstv. fjármálaráðherra hefur veitt. Það er við Telegraph, þetta er ekki viðtalið þar sem hæstv. fjármálaráðherra talar um lagningu sæstrengs heldur þar sem hæstv. ráðherra ræðir einmitt þann vanda sem hér er við að eiga varðandi þriðja orkupakkann. Ég tel að það sem hæstv. ráðherra greinir frá í þessu viðtali geti varpað nýju ljósi á þetta mál og hjálpað okkur að leiða það til lykta, vonandi í meiri samstöðu en verið hefur í þinginu fram að þessu.

Viðtalið við Telegraph er rúmlega ársgamalt og þar sem þingmálið er íslenska styðst ég við endursögn Viðskiptablaðsins af þessu viðtali. Þar segir, með leyfi forseta:

„„Evrópusambandið álítur sjálfstæði okkar vera vesen,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við breska blaðið Telegraph, og lítur hann á að yfirvöld í Brussel séu að taka sér sífellt meiri völd í gegnum EES. Segir það hneykslanlegt ef sambandið telur að Íslendingar samþykki eitthvað annað en núverandi tveggja stoða kerfi í gegnum EES.

Íslensk stjórnvöld eru sögð óhress með hve þrýstingur Evrópusambandsins sé sífellt að aukast á að hér verði teknar upp síauknar viðbótarreglur, nú síðast vegna orkumála og meðferðar matvælaeftirlits. Sagði hann stjórnvöld í Evrópusambandi líta á sjálfstæði landsins sem sífellt meira vesen, en hann segir í viðtalinu að dýpri samþætting allra hluta innan sambandsins sé að gera Íslandi erfitt fyrir að gæta þjóðarhagsmuna sinna.“

Næsta fyrirsögn er: Sagt vera víti til varnaðar fyrir Bretland. Það er áhugavert, herra forseti, að Bretar eru einmitt þessa stundina að kjósa til Evrópuþingsins en það er önnur saga sem ég mun fjalla nánar um í síðari ræðu.

Áfram segir:

„Í greininni er bent á hvað gæti fylgt fyrir Bretland ef ekki verði gengið alla leið í útgöngu Bretlands út úr Evrópusambandinu en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa stjórnvöld samþykkt að eftir að tveggja ára útgönguferlinu lýkur taki við millibilssamkomulag þangað til endanlegt samkomulag um samskipti ESB og Bretlands náist.

„Þeir sem vilja aukna aðlögun að ESB-reglunum eru að herða róðurinn og ef af því verður mun verða enn minna umburðarlyndi fyrir sérstökum lausnum innan Evrópska efnahagssvæðisins,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtalinu.

„Mjög nýlegt dæmi er hrátt kjöt og reglur um frjálst flæði á vörum. Lína ESB er að sama reglan eigi að gilda fyrir alla og ekki sérreglur í neinum tilvikum. En við erum sértækt dæmi, þar sem á Íslandi er engin salmonelluveira, það er varla hægt að tala um það sem vandamál hér, eins og það er í aðildarríkjum sambandsins. Ef við bætist sýklalyf, ég meina, þau eru varla notuð á Íslandi, í samanburði við alifuglarækt á Spáni.““

Næsta fyrirsögn er: Vaxandi áhyggjur af skilningsleysi.

„Sagði Bjarni að það væru vaxandi áhyggjur heima á Íslandi fyrir því að Evrópusambandið sýndi því ekki skilning af hverju Íslendingar væru ekki tilbúnir að láta tilleiðast og fylkja sér með verkefninu um sameinaða Evrópu.

„Þeir [ESB] eru nánast að sýna dónaskap, það er eins og þetta sé bara vesen í þeirra augum sem þeir spyrja hvenær við munum losa okkur við. „Hvers vegna geta ekki allir bara orðið meðlimir að fullu og öllu leyti?“ Ég get svo sem skilið þá út frá stjórnmálalegu sjónarmiði, en staðan er einfaldlega sú að ef til staðar er alþjóðasamningur [eins og við höfum] þá þarf að virða hann, það er einfaldlega þannig.““

Ég næ ekki að klára þessa yfirferð alveg, ekki í þessari ræðu en vonandi þeirri næstu, en þetta er mjög lýsandi fyrir viðhorf okkar Miðflokksmanna í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Ég fagna því þessum liðsauka, þó að hann berist ári eftir að hann var veittur, frá hæstv. fjármálaráðherra og vona að hann megi verða leiðsögn fyrir flokk hans og fleiri flokka.