149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fyrirkomulag var sett á sérstaklega til þess að málið væri í samræmi við tveggja stoða kerfið. Það er ekki á skjön við tveggja stoða fyrirkomulagið að einn sendi öðrum drög. Hv. þingmaður veit mætavel að ACER mun ekki taka neinar ákvarðanir. ESA mun taka ákvarðanirnar og að sjálfsögðu fá drög frá ACER, enda væri annað svolítið skrýtið í ljósi þess að markmiðið með þessu öllu saman er að reyna að hafa einhvern heildarsvip á orkumálum í Evrópu. Það er tilgangurinn og það er bara ágætistilgangur, ekki að það þýði að við ætlum hafa sæstreng hér, en það er í eðli sínu jákvætt markmið og reyndar markmið EES-samningsins og ESB.

Þetta er ekkert skrýtið, tveggja stoða kerfið er hugsað til þess að hafa hlutina þannig að við getum haft aðgang að þessu markaðssvæði og samræmt reglur okkar við ESB. Það er allur tilgangurinn með því að vera í EES.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að einhver vafi leiki á því að þetta standist tveggja stoða kerfið. Þetta stenst tveggja stoða kerfið. Ég get sent bréf til hæstv. ráðherra og beðið hann að leggja fram frumvarp en það þýðir ekki að valdið til þess að leggja fram frumvarp (Forseti hringir.) á Alþingi sé tekið af forsætisráðherra. Mér finnst þetta álíka galin nálgun.