149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Í sjálfu sér má segja að ég búi yfir svipaðri von. Ég hef eiginlega hengt vonir mínar á það að á laugardaginn milli kl. 11 og 13, þegar 90 ára afmælishátíð Sjálfstæðisflokksins verður haldin í Valhöll með kaffi og kræsingum, myndi hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hitta nógu marga Sjálfstæðismenn sem væru á sömu skoðun og þeir sem hafa haldið uppi nokkru andófi gagnvart þessum þriðja orkupakka undanfarin dægur. Ég er svo bjartsýnn maður að eðlisfari að ég hafði hengt von mína á það að fjármálaráðherra myndi hitta hinn almenna Sjálfstæðismann og fá viðhorf hans beint í fangið yfir kaffibolla sem yrði kannski til þess að hann sæi að sér og að hann, líkt og hv. þingmaður sagði, myndi stíga inn og leysa málið til farsældar fyrir okkur öll.