149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Það er sannarlega óskandi að sú verði raunin. Ég tel að þessi afmælisfögnuður Sjálfstæðisflokksins komi til á mjög heppilegum tíma. Þá gefst hæstv. fjármálaráðherra og þingmönnum flokksins tækifæri til að hitta margt af hinu góða flokksfólki, hina traustu Sjálfstæðismenn, fólk sem hefur jafnvel fylgt sjálfstæðisstefnunni áratugum saman og hefur áhyggjur af því í hvað stefnir með þetta mál. Það er reyndar ekki bara Sjálfstæðisfólk sem hefur áhyggjur heldur líka fólk úr grasrót Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, úr gamla Alþýðuflokknum, og svo sannarlega fólk úr Framsóknarflokknum sem hefur eðlilega miklar áhyggjur af þessu máli. Vonandi verða samskipti þingmanna þessara flokka við stuðningsmenn þeirra sem mest og vonandi munu stuðningsmennirnir gera þingmanninum ljóst hvað Íslandi er fyrir bestu í málinu.