149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var góður texti og í raun fallegur. Hann lýsir því að samningurinn eigi að virka með þeim hætti að þegar upp koma álitamál, þegar eitt ríki telur á sig hallað, eigi menn að hittast og leita lausna sem allir geti sætt sig við. Það er óskiljanlegt að menn skuli ekki nýta þetta ákvæði samningsins. Svarið við spurningunni er: Nei, menn eru ekki að fara bestu leiðina, svo sannarlega ekki. En ekki nóg með það, ég er þeirrar skoðunar að menn séu að fara hættulega leið.

Með því að gera hlutina eins og ríkisstjórnin leggur upp er verið að setja mjög varasamt fordæmi. Fordæmið er þetta: Þegar upp koma stór ágreiningsmál, og menn óttast að hagsmunir þeirra séu fyrir borð bornir, treystum við Íslendingar okkur ekki til að nýta þau ákvæði samningsins sem eru skrifuð inn í hann, sérstaklega til að takast á við slíkt. Það mun einfaldlega valda því að sífellt erfiðara verður að nýta það ákvæði því að menn geta vísað í fordæmi um að það hafi ekki verið gert áður.