149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:54]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nú hefur því verið haldið fram að verði sú leið valin sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, og byggist á 102. og 103. gr. og fleiri greinum, verði hér uppi mikil pólitísk óvissa og látið hefur verið að því liggja að haft hafi verið í hótunum við Ísland af hálfu Evrópusambandsins.

En varðandi þá leið að fara aftur með málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar segir dr. prófessor Carl Baudenbacher, sem kom fyrir hv. utanríkismálnefnd, og þetta er 15. töluliður á bls. 7 í álitsgerð hans, um andstöðuna á Íslandi — þetta er í lauslegri þýðingu þess sem hér stendur sökum þess að við höfum ekki fengið þessi skjöl þýdd — að hún hafi að meginhluta snúist um innleiðingu reglugerðar 713/2009 og þriðja orkupakkann í heild. (Forseti hringir.) Hann telur þar að hægt sé að fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina á ný með málið (Forseti hringir.) og endar greinina á því að segja á enska tungu, (Forseti hringir.) með leyfi forseta: „That would do no harm.“ Það myndi ég þýða: Það væri að meinalausu. Hvert er álit hv. þingmanns á þessu máli?