149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vona að hæstv. forseti taki því ekki illa þó að ég geri athugasemdir undir þessum lið svona skömmu eftir að þingfundur hefst en ég geri það í framhaldi af fyrirspurnum til forseta hér í nótt, fyrirspurnum sem engin svör hafa fengist við. Spurningarnar snúast um þetta: Hvar er hæstv. utanríkisráðherra? Ekkert hefur til hans spurst býsna lengi. Ég hef beðið virðulegan forseta um að grennslast fyrir um það hvar hæstv. utanríkisráðherra sé að finna, hvort hægt sé að hafa samband við hann og jafnvel fá hann til að koma hingað og taka þátt í þessari umræðu um málið sem hann lagði fram. Málið hefur svo sannarlega skýrst í þessari umræðu, margt nýtt komið í ljós og margar spurningar kviknað. En það er enginn til svara, allra síst ráðherrann sem lagði málið fram. Hann er hvergi að finna. Við vitum ekki hvort hann er á Íslandi, við vitum ekki hvort hann er í Evrópu, við vitum ekki hvar maðurinn er eða hvenær hans megi að vænta.