149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það heyrist glöggt á máli hv. þingmanns að það skilar árangri að leggjast yfir frumheimildir, leggjast yfir texta reglugerðanna, sérstaklega þeirra tveggja sem mest hafa komið við sögu, 713 og í minna mæli 714, og tilskipunar 72, allar frá 2009. Mér finnst svolítið áberandi, í almennri umræðu á þessu méli, að það gætir eilítils óþols gagnvart öndverðum skoðunum en menn hafa sjálfir. Það er nú eitt og ekki er mikið við því að segja. Við það verður að búa. Slíkt hefur í vissum tilfellum leitt af sér að menn hafa fundið hjá sér hvöt til að viðhafa ýmiss konar orð um þá sem leyfa sér að hafa uppi og halda fram öðrum sjónarmiðum. En upp á síðkastið hefur manni sýnst að hjá einstaka manni, verður að segjast, sé mikil þörf fyrir að þeirra einkaskoðun, þeirra eigið mat á þáttum sem alla jafna myndu kalla á greiningu af hálfu sérfræðinga — ég heyrði þetta einu sinni kallað á sænsku, sem ég ætla að leyfa mér að sletta hér, með leyfi forseta, „deras eget lilla hemmarbete“ — hafi gildi rétt eins og um sérfræðiálit væri að ræða.

Hefur hv. þingmaður tekið eftir þessu?