149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki síst vegna ummæla hæstv. forseta fyrir skemmstu, þegar hann tók sér í munn orðið „mannasiðir“ um framgöngu eins hv. þingmanns úr Píratasöfnuðinum. Þess vegna hugsaði ég, þegar annar hv. þingmaður úr sama söfnuði rauk á dyr á meðan hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svaraði andsvari frá honum, að það væri kannski til marks um á hvaða stigi og hvaða hæðum hann hefði náð í að sýna af sér mannasiði eins og það heitir í máli okkar ágæta og hæstv. forseta.

En talandi um þetta, að fólk sé að halda fram hlutum eins og staðreyndir væru, eða jafnvel álit sérfræðinga, verður mér hugsað til þeirra tveggja blaðagreina sem hafa birst undanfarna daga, ritaðar af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar gera þau grein fyrir ástæðum þess að þau styðja þennan orkupakka. Þau halda því fram, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og hv. þm. Vilhjálmur Árnason, að búast megi við að raforkuverð lækki hér eftir að þriðji orkupakkinn hefur tekið gildi.

Ég lít svo á að hér sé um að ræða sérfræðilegt málefni. Reyndar er það svo að þær fullyrðingar um lækkað raforkuverð hér á landi stangast á við reynslu manna, eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson hefur verið ötulastur við að sýna fram á, bæði af eigin reynslu og byggðarlagsins suður með sjó á Vatnsleysuströnd. En síðan stríðir þetta gegn viðteknum viðmiðum eins og þeim t.d. að meginmarkmið EES-samstarfsins eru samræming og einsleitni og það mun auðvitað ekki leiða af sér eða vinna með því að verð hér á landi lækki í samanburði við Evrópulöndin.