149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ekki alveg laust við að hér hafi verið haldið fram alls kyns „álitum“, skulum við segja, ekki staðreyndum heldur skoðunum sem standast ekki. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni samanburð á orkuverði í þessu andsvari og ég leyfi mér að lesa úr pistli þar sem skýrslur eru bornar saman:

„Samanburður á milli ríkja er nauðsynlegur svo greina megi þetta betur. Á mynd 1“ — sem ég get ekki sýnt hér — „má sjá samanburð á raforkuverði til heimilisnotenda í ýmsum Evrópuríkjum, á seinni árshelmingi 2018. Miðað er við að notkun liggi á bilinu 2.500–5.000 kílóvattstundir á ári. Kílóvattstundin á Íslandi er þarna sögð vera 0,1457 evrur. Meðalverð í Evrópusambandinu er hins vegar 0,2113 evrur og 0,2242 evrur á evrusvæðinu. […] Út frá þessu sést að kílóvattstundin í Evrópusambandinu að meðaltali er um 45% hærri en á Íslandi.“

Hér er fólk tilbúið að koma í ræðustól og fullyrða að þetta verði til hagsbóta fyrir neytendur. Og ekki bara það, þetta verði til þess að rafmagnsverð geti hreinlega lækkað. Hvar eigum við að fá það rafmagn, herra forseti? Það myndi lækka frá því sem það er hér vegna þess að það er dýrara í Evrópusambandinu, það er nokkuð ljóst. En hvaðan ættum við að fá þetta ódýrara rafmagn? Erum við að fara að leggja sæstreng til Grænlands eða eitthvað svoleiðis og láta þá borga fyrir allt klabbið?