149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að fara aðeins yfir það með hv. þingmanni að eftir því sem hann kafar meira ofan í reglugerð 72/2009 verður æ ljósara hversu þunnur sá þráður er sem menn hafa spunnið hér um að í orkupakka þrjú, eins og hann liggur fyrir í þingsályktunartillögunni, felist ekki það valdframsal sem við höfum óttast, margir, og lögspekingar reyndar líka.

Mig langar því til að fara aðeins yfir það með hv. þingmanni hvernig hann sér það mál, það efni. Eins og við höfum heyrt hafa menn haft þessar sömu áhyggjur fyrr. Ég man í fljótu bragði eftir viðtali, ekki svo gömlu, sem ég hyggst fara yfir síðar, við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé, þar sem hann lýsir miklum efasemdum um samevrópskt raforkusvæði. Ég hyggst fara yfir það einhvern tímann í ræðu síðar við umræðuna. En líka fann maður í sjálfu sér fyrir þessum ótta í því ágæta viðtali sem hér var getið um áðan við Bjarna Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem virtist hafa sömu áhyggjur eða svipaðar og við höfum nú. En þær áhyggjur eru frá honum teknar af einhverjum ástæðum sem við vitum ekki hverjar eru.

Mig langar aðeins til að spyrja hv. þingmann, í ljósi t.d. sinnaskipta formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. fjármálaráðherra: Sér hv. þingmaður eitthvað í því sem hann er búinn að kafa ofan í í reglugerð 72/2009 sem gæti orðið til þess að aflétta áhyggjum okkar af því valdframsali sem við höfum áhyggjur af?