149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið nokkuð hugsi, og við fleiri, við þessa umræðu vegna þess að nú eru það Vinstri græn sem leiða markaðsvæðingu orkuauðlinda Íslands og hefði maður ekki trúað því fyrr en maður hefði tekið á fyrir nokkrum árum.

Hv. þingmaður minntist á náttúruvernd. Það kemur einmitt fram, í nýlegri grein sem ég var að fá í hendur, að Landsnet segist ráða við 85 MW aukaafl innan núverandi línu, sem sagt að línur Landsnets þoli flutningsgetu upp á 85 MW til viðbótar. En vindmyllugarðar þeir sem boðaðir hafa verið eru með afli upp á rúm 400 MW, ef ég hef tekið rétt eftir. Þessi flokkur sem kennir sig við náttúruvernd, Vinstri græn, hefur gengið svo fram af einum fyrrverandi þingmanna sinna að hann kallar þau nú Hreyfingin – framboð, en hvorki vinstri né græn. Ég velti fyrir mér: Er þetta ekki eitt af því sem við þurfum að gaumgæfa alveg sérstaklega? Þessi ásókn sem nú er, sérstaklega í vindmyllugarða, einnig í smávirkjanir — er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að gaumgæfa? Ég sé ekki betur en að þetta muni kalla á alveg gríðarlegar framkvæmdir í línulögn. Línulögn hefur verið mjög erfið. Ég þekki það, sem alþingismaður til sex ára, að þetta er kannski eitt það erfiðasta sem við höfum verið að fást við vegna tregðu manna til að leggja línu yfir land sitt og sveitir o.s.frv. og af skiljanlegum ástæðum.

Er þetta ekki stórt verkefni sem menn eru að líta fram hjá við afgreiðslu þessa þriðja orkupakka?