149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir ábendingarnar og spurningar. Ég verð að kynna mér þessar tvær nýju tillögur um lagalega fyrirvarann sem hv. þingmaður benti mér á, a.m.k. tveir á Facebook-síðu eins hv. stjórnarþingmanns. Það stendur yfir í raun og sanni leit að lagalega fyrirvara ríkisstjórnarinnar sem hún kynnir sem raunverulega grundvallarforsendu fyrir því að óhætt sé að aflétta þjóðréttarlegum fyrirvara af orkutilskipun Evrópusambandsins. Það stendur yfir leit að þessum lagalega fyrirvara og við stöndum hér í ræðuhöldum til að fá svör. Ég skora á stjórnarþingmenn að koma og panta sér tíma í pontu og svara þessu.