149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:45]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir prýðisræðu. Hann gerði að umræðuefni m.a. um sigur Selfyssinga í handbolta, en það sem var nær málefninu hér voru fyrirvarar þeir sem settir hafa verið fram af stjórnarliðum, en þeir hafa ýmsar birtingarmyndir og óvíst að allir finnist.

Varðandi það að slíkir fyrirvarar geti staðist samninginn um Evrópska efnahagssvæðið — vegna þess að nú erum við að ræða innleiðingu á orkupakka þrjú og sú innleiðing verður þá hluti af samningnum, við erum að ræða það hvort það yfir höfuð að gera fyrirvara standist hreinlega samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í því sambandi það þá langar mig til að lesa 3. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem segir:

„Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi, almennar eða sérstakar ráðstafanir, til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir.“

Með því að gera lagalega heimatilbúna fyrirvara er verið að ganga í berhögg við þessa grein samningsins.

„Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.“

Ef við förum fyrir sameiginlegu EES-nefndina og meitlum þetta í stein eins og við gerðum með fiskveiðistjórninni, verður það hluti af samningnum og markmiðum hans. Ef sú leið er farin sem búið er að velja hér þá erum við í trássi við þessa grein.

„Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.“

Og 5. gr. segir enn fremur:

„Samningsaðilar geta hvenær sem er vakið máls á áhyggjuefnum í sameiginlegu EES-nefndinni eða EES-ráðinu í samræmi við þær aðferðir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 92. gr. og 2. mgr. 89. gr. eftir því sem við á.“ (Forseti hringir.)

Nú veit ég að hv. þingmaður er löglærður. Hvernig skilur hann þennan texta?