149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir spurninguna. Þegar stjórnvöld kynntu fyrirhugaða innleiðingu á orkutilskipuninni þá kynntu þau það með þeirri ætlan sinni að við málið yrði þó lagður lagalegur fyrirvari. Það var kynningin. Og andstaðan sem orðið hafði vart innan stjórnarflokkanna áður en þetta kom til hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Auðvitað urðu menn spenntir að sjá hvað það væri sem stjórnarflokkarnir hefðu þarna fundið upp sem var svona snilldarlegt, að við gætum innleitt þetta án nokkurrar áhættu, frú forseti. Síðan þegar spurt var um það hér á þingi þegar málið var lagt fram var eins og það væri ekki svo skýrt.

Bent er á ýmsar yfirlýsingar og fundi og texta í greinargerð, eins og ég hef nefnt, þannig að menn eru ekki vissir. Menn gefa engin skýr svör. Menn greinir á, eins og hjá lögreglunni. Þá myndu menn segja: Menn verða svolítið tvísaga í málinu, eins og það heitir á lögreglumáli. Við bíðum enn spenntir eftir þessu.

Ég á reyndar eftir að fara í fleiri skýringar á því hvar þennan fyrirvara er að finna og kannski munu stjórnarliðar einhvern tímann benda mér á það nákvæmlega hvar hann er að finna, en ég hef ekki séð hann og alls ekki heyrt svo óyggjandi sé að við séum með hinn rétta og sanna lagalega fyrirvara í höndunum. En ég hef heyrt af reglugerð. Og reglugerðir innan Evrópusambandsins hafa nú mikið vægi og líka lagavægi þar. En eins og allir vita eru reglugerðir á Íslandi (Forseti hringir.) gefnar út uppi í Skuggasundi.