149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar og hugleiðingar og mun gera mitt besta til að svara honum.

En ég var nú kominn svo langt að tala um boðaða fyrirvara ríkisstjórnarinnar. Ég tel að það hafi verið forsenda margra þingmanna þegar þeir tóku ákvörðun í þessu máli innan stjórnarliðsins, sérstaklega innan stjórnarflokkanna, að boðaðir lagalegir fyrirvarar hafi hugsanlega meira að segja verið ákvörðunarástæða þegar þeir ákváðu að styðja málið. Síðan þegar fyrirvararnir virðast vera frekar þokukenndir, svo ekki sé meira sagt, þá spyr ég: Til hvers var farið af stað? Var þetta bara orðskrúð? Var þetta einhvers konar blekkingaleikur til að fá menn til fylgis við málið? En við sem bíðum eftir að fá að sjá þessa lagalegu fyrirvara krefjumst þess (Forseti hringir.) að á þá sé bent og að þeir haldi.