149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er ekki uppörvandi heldur þvert á móti verður maður enn áhyggjufyllri en fyrr vegna þess að þetta mál átti, og á reyndar, að keyra í gegnum þingið á methraða, flausturslega, undir því yfirskini að það væri varðað fyrirvörum sem stæðust lagalega. Við höfum fengið fréttir af því í þessari umræðu og það hefur komið betur og betur í ljós eftir því sem á hana hefur liðið og sýnt okkur betur og betur nauðsyn þess að sú umræða sé uppi og nauðsyn þess að halda henni áfram til að fá botn í þetta. Því spyr ég hv. þingmann: Er ekki affarasælast, fyrst nú er komið í ljós að hinir lagalegu fyrirvarar eru í besta falli eins og pótemkintjöld eða eitthvað slíkt, er (Forseti hringir.) ekki rétt að við tökum þetta mál til hliðar, geymum það (Forseti hringir.) til haustsins og vinnum það betur?