149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Eftir þessa miklu yfirferð yfir fyrirvarana held ég að það væri kannski rétt að snúa sér að öðrum þætti í þessu víðfeðma máli, en það eru áhrif á umhverfi og náttúru. Ég hyggst ræða hérna, að sjálfsögðu með leyfi forseta, umsögn Hjörleifs Guttormssonar, þar sem hann víkur að þeim þáttum. En vegna þess að ég þykist vita að hæstv. forseti hafi mikinn áhuga á verðlagningu og áhrifum af innleiðingu á orkupakkanum á raforkuverð, þá ætla ég að leyfa mér að hefja umfjöllun mína um umsögn Hjörleifs Guttormssonar, þar sem hann segir í 6. lið í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Tenging við orkumarkað ESB myndi hafa í för með sér stórhækkun á raforkuverði til fyrirtækja og heimila, þar með talið á verði til húshitunar, bæði beinnar rafhitunar og hitaveitna, en kostnaður við þær byggir að hluta til á raforku.“

En nóg um þetta, frú forseti. Hjörleifur Guttormsson er náttúrlega þjóðkunnur náttúrufræðingur og er almenningi mjög vel kunnur, ekki bara vegna stjórnmálaþátttöku hans, heldur vegna þess að hann hefur ritað árbækur Ferðafélagsins af mikilli snilld, svo ég leyfi mér að orða það svo, og þær eru orðnar nokkrar. Hann hefur gert heimabyggð sinni austur á fjörðum alveg sérlega góð skil og aðdáunarvert með hvaða hætti hann fjallar um viðfangsefni sín sem snúa að náttúru og umhverfi.

Í 7. lið umsagnar Hjörleifs Guttormssonar segir, með leyfi forseta. Fyrirsögnin er: Náttúra landsins og almenningur þolendurnir.

„Augljóst er að auk heimila og smáfyrirtækja sem greiða kostnaðinn af innleiðingu orkupakka þrjú og meðfylgjandi tengingu við ESB-kerfið verður íslensk náttúra, ár, vötn og jarðhitasvæði, þolendur af aukinni ásókn í virkjanir með væntanlegan útflutning raforku fyrir augum. Þessa gætir nú þegar í neikvæðum viðhorfum landeigenda og sumra sveitarfélaga til verndunar dýrmætra náttúrusvæða, þar á meðal hugmynda um miðhálendið allt sem þjóðgarð. Furðu sætir að flokkur sem kennir sig við græna stefnu skuli gerast þátttakandi í slíkum leiðangri í stað þess að beita sér fyrir að styrkja almannaeign á orkuauðlindinni og stilla til um hóflega nýtingu hennar. Fyrir dreifbýlið er hér líka sérstaklega mikið í húfi og því óskiljanlegt að þeir sem telja sig talsmenn þeirra sem þar þrauka skuli gerast ábekingar á orkupakka þrjú.“

Í 8. lið umsagnar Hjörleifs Guttormssonar sem ber yfirskriftina: Orkustofnun undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, segir, með leyfi forseta:

„Andstætt því sem er að gerast með orkupakka þrjú, þar sem breyta á Orkustofnun í yfirþjóðlegt skrímsli, ætti að tryggja að stofnunin lúti almannahagsmunum, þar á meðal um verndun og hlífð gagnvart náttúru landsins. Annað hefur verið uppi á teningnum um langa hríð eins og gagnrýnislaus rannsóknaleyfi stofnunarinnar til virkjanaundirbúnings bera ljósan vott um. Til að tryggja nauðsynlegt samræmi og mat á auðlindavernd og nýtingu er löngu tímabært að færa málefni Orkustofnunar undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og það sama ætti sem fyrst að gerast með Hafrannsóknastofnun, sem nú heyrir undir ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar.“

Mér þykir líka rétt að grípa niður í 9. tölulið í umsögn Hjörleifs Guttormssonar þar sem hann ræðir um að treysta þurfi almannaeign á orkuauðlindunum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stað þess að ýta undir séreignarsjónarmið og brask með einn helsta grundvöll mannlífs hérlendis ætti Alþingi að beita sér fyrir öðrum og skýrari ákvæðum um almannaeign á orku fallvatna og jarðhita en nú er kveðið á um.“

Svo mörg voru þau orð. Ég leyfi mér að segja að þessir þættir málsins, náttúruvernd og umhverfisþættir sem snúa að þessum orkupakka hafa nánast ekkert verið ræddir. Engar greinargerðir liggja fyrir (Forseti hringir.) í þessu þýðingarmikla máli og það er auðvitað ekki við það búandi.