149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:08]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég hef oft leitt hugann að því viðfangsefni sem hann fjallaði um, sem er afstaða þess flokks sem einn flokka kennir sig við grænan lit og merkir sig þannig sem a.m.k. áhugasaman um náttúru og umhverfi. Þessi sami flokkur ber kannski öðrum flokkum meiri ábyrgð á mikilli kolabrennslu hjá atvinnufyrirtæki norður í landi og verður að segjast að menn súpa nú gjarnan hveljur þegar magn tonna sem er þar brennt á ári hverju er nefnt.

Þessi ágæti flokkur fer hér með í senn stjórnarforystu og umhverfisráðuneyti, en þegar upp rísa náttúruverndarmenn og benda á að hálendi Vestfjarða sé kannski eitt af síðustu ósnortnum víðernum, a.m.k. í þessum heimshluta, þá sér hann ekkert þeirri náttúruperlu til bjargar og er ekki annars að vænta en að vélaskóflur og jarðýtur verði látnar ganga þar lausar áður en langt um líður. Umhverfisstefna þessa flokks, eins og hún birtist í töluðu máli annars vegar og hins vegar í verkum, er því alger ráðgáta.

Ég ætla að leyfa mér að nota þetta tækifæri og minna á að almenna reglan varðandi virkjanir innan við tíu megavött sæta ekki umhverfismati. Ég hef af því tilefni lagt fyrirspurn fyrir hæstv. iðnaðarráðherra um hvaða rannsóknaleyfi hafa verið gefin út til virkjana af því tagi, vatnsafls og vindorku, og sömuleiðis hvaða heimildir hafa verið gefnar til að setja á (Forseti hringir.) laggirnar slíkar virkjanir.