149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:13]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu og upprifjun á því hvernig hið pólitíska veður getur verið eins og hið íslenska veður, það getur breyst án nokkurs fyrirvara. Hv. þingmaður vitnaði í skrif Hjörleifs Guttormssonar. Á Íslandi er ákveðinn samfélagssáttmáli í gildi og hefur verið um langa hríð. Við höfum verið á eitt sátt um að auðlindir okkar skuli vera í þjóðareigu. Við upplifum kannski önnur sjónarmið hjá ungu fólki, öfgar til hægri eða vinstri, og það er eðlilegt þegar maður ungur, það er stundum kallað í stjórnmálunum að unga fólkið sem heldur slíkum skoðunum á lofti sé samviska flokksins, svolítið til að halda eldra fólkinu, sem er að vasast í stjórnmálunum, á tánum svo að það hafi súrefni í blóðinu. Þörfin fyrir raforkuna á Íslandi er jafnvel enn meiri en í mörgum öðrum löndum, allir þurfa raforku. Það er alveg sama hvort fólk er af háum stigum eða lágum, hefur mikil efni eða minni, landið er harðbýlt og við þurfum orkuna til að komast af.

Vekur það ekki athygli, hv. þingmaður, að menn sem eru eldri en tvævetur í stjórnmálum og koma úr öllum fylkingum — Hjörleifur Guttormsson, Ögmundur Jónasson, Tómas Ingi Olrich, Jón Baldvin Hannibalsson, Davíð Oddsson, reynsluboltar sem allir hafa sinnt ábyrgðarstöðum — virðast vera á einu máli um þetta mál?