149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann drap á ýmsa þætti sem hægt væri að ræða hér í löngu máli. Eitt var samfélagssáttmálinn og annað var hvernig orkupakkinn hefur orðið mikið og öflugt sameiningarafl fólks sem kemur víða að úr samfélaginu og hefur starfað á grundvelli ólíkra pólitískra hugsjóna. Ég hef setið nokkra fundi í félagsskap sem kallar sig Orkuna okkar og þar eru flestir þeir ágætu menn, sómamenn miklir, sem hv. þingmaður nefndi. Og talandi um menn á þeim vettvangi sem eru þekktir fyrir störf að stjórnmálum fyrr á tíð þá er sjálfsagt að nefna líka mann eins og Jón Bjarnason, sem var hér á þingi fyrir Vinstri græna og gegndi ráðherrastörfum fyrir þann flokk.

Varðandi samfélagssáttmálann þá er það sömuleiðis mikið umhugsunarefni. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort einhvers konar samfélagssáttmáli sé í fæðingu á Íslandi um það að að meginstefnu til — ég varpa þessu fram sem tilgátu — sé a.m.k. í bili búið að virkja það vatnsafl sem menn telja fært í ljósi umhverfis- og náttúruverndar. Hér eru að ryðja sér til rúms nýir orkugjafar. Það eru vindorkan og sólarorkan, hún mun koma í miklu meira mæli — og í nokkrum fjarska, eftir nokkra áratugi, mun virkjun sjávarfalla koma til. Framtíðin í orkumálum Íslendinga er því björt.