149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:18]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir svarið. Nú er það svo að þeir menn sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu eru ekki beint þekktir fyrir að vera samherjar í stjórnmálum. Það er ekki þannig að þeir sitji allir saman í reykfylltum bakherbergjum og bruggi ráð hver með öðrum heldur þvert á móti. Þetta eru menn sem hafa sinnt ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu og hafa jafnan tekist á. Tómas Ingi Olrich og Davíð Oddsson voru flokksbræður og eru enn, en Jón Baldvin Hannibalsson var í öðrum flokki og Hjörleifur Guttormsson og Ögmundur Jónasson sömuleiðis. En það er alveg morgunljóst að þessir menn eru sammála um eitt og það er þessi samfélagssáttmáli. Getur hv. þingmaður verið sammála mér um það?