149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Forseti. Já, ég ætla að leyfa mér að segja að samfélagssáttmálinn sé í gildi, í þeim skilningi sem hv. þingmaður er að tala um, þ.e. sáttmáli um að orkuauðlindir séu í eigu þjóðarinnar og orkuframleiðslufyrirtæki séu í eigu þjóðarinnar að meginstefnu til. Það eru mjög gleðileg tíðindi að lífeyrissjóðirnir hafi eignast alla hluti í HS Orku. Lífeyrissjóðirnir eru náttúrlega í eigu almennings, sjóðfélaga, þannig að það er út af fyrir sig mikið fagnaðarefni. Sömuleiðis er dreifikerfið rekið af Landsneti. Þetta er í almannaeigu. Ég tel að um þetta ríki samfélagslegur sáttmáli. Eitt af því sem vekur mönnum ugg varðandi þriðja orkupakkann er það að hann gæti ekki bara rekist á við stjórnarskrána heldur gæti hann sömuleiðis rekist á og ógnað þessum samfélagslega sáttmála, sem ég álít að sé mjög víðtækur og viðurkenndur meðal almennings.