149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Fyrst hv. þingmaður nefnir Hjörleif Guttormsson sérstaklega þá er auðvitað á það að líta að hann gegndi embætti iðnaðarráðherra fyrr á tíð í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar sem mynduð var 14. júlí 1971, þykist ég muna rétt, sem stóð allt þar til að Geir Hallgrímsson myndaði sína ríkisstjórn 28. september 1974. [Á að vera 28. ágúst 1974. Sjá leiðréttingu þingmanns 28. maí 2019 kl. 14:47.] Þess er skemmst að minnast. Þannig að hann hefur langa yfirsýn og mikla þekkingu á þessum málaflokki, bæði séð frá sjónarhóli manns sem gegnt hefur embætti iðnaðarráðherra á miklum umbrotatímum og sömuleiðis í krafti hans miklu þekkingar á náttúrufræðum, rannsóknum hans og ritstörfum á því sviði.

Það er athyglisvert í samtíma okkar að tekið skuli hafa saman höndum stjórnmálaflokkar sem ekki hafa unnið saman áður á lýðveldistímanum í slíku samstarfi eins og nú getur. Það er algjörlega óþekkt að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og það sem áður hét Alþýðubandalagið, heitir núna Vinstri grænir eða eitthvað slíkt, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, held ég að það heiti fullum fetum, starfi saman. Auðvitað unnu Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn saman ásamt Alþýðuflokknum á árunum 1944–1946. En það er ekki eins og þessir flokkar, sem eru þarna svona svolítið langt hver frá öðrum, framkalli hið besta hver (Forseti hringir.) í öðrum. Því miður.