149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það sé hárrétt ályktað hjá hv. þingmanni. Öðru skaut ofan í kollinn á mér nú þegar við erum að ræða þetta, vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem ríkisstjórn af þessari gerð, ef við getum orðað það þannig, kemst til valda á Íslandi. Það fer eiginlega ekki úr hausnum á mér að á margan hátt sé þetta stjórnarsamstarf einhvers konar tilraunastarfsemi. En það er náttúrlega grafalvarlegt þegar tilraunastarfsemin er gerð á fjöreggi þjóðarinnar, að menn séu með fjöregg þjóðarinnar í einhvers konar óvissuferð, eins og þetta hefur verið kallað af gildum lögmönnum, spekingum. Það er náttúrlega það sem veldur manni svo stórum áhyggjum að þessi óvissuferð skuli vera farin með fjöregg þjóðarinnar í farteskinu. Það sem er kannski verst í þessu máli er að þrátt fyrir að við höfum bent ítrekað á það í þessari umræðu þá virðast menn ekki (Forseti hringir.) ætla að láta sér segjast og taka málið til hliðar og gaumgæfa það betur, því miður.