149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það viðtal sem við heyrðum áðan lesið úr hefur í sjálfu sér þau áhrif að maður eflist mjög í þeim ásetningi að rétt væri og skylt að hæstv. fjármálaráðherra kæmi hér til fundar og færi yfir þetta mál með okkur. Það er alveg hárrétt, þessi orð hans í viðtalinu eru mjög hvetjandi og þau hefðu komið sómt sér vel sem góð hvatningarræða, t.d. í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins, til að taka þetta mál til hliðar nú og fara betur yfir það og reyna að bæta málið með einhverjum hætti.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur haft það í nokkrum flimtingum að ég hafi skipt um stjórnmálaflokk einu sinni á ævinni en ég hef sagt honum að það sé hygginna manna háttur að skipta um skoðun einstaka sinnum, eins og Churchill benti á.

En mér þykir þessi kúvending fjármálaráðherra hins vegar mjög athyglisverð og þess vegna hefði ég persónulega mjög gjarnan viljað hafa haft tækifæri til að skiptast á skoðunum við hann um það akkúrat hvað varð til þess að hann kúventi svona gjörsamlega. En eins og fram kom áðan og fyrr í umræðunni er hann ekki einn um að hafa kúvent í þessu máli og kannski er þetta bara angi af þeim samruna sem ég minntist á áðan milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera að raungerast.

Mig langar því til að biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir það hvað hann telur líklegt að hafi orðið til þess að fjármálaráðherra skipti svona gjörsamlega um skoðun og svona gjörsamlega um kúrs.