149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki gott að segja, en ég bind enn vonir við að í hjarta sínu hafi hæstv. fjármálaráðherra ekki skipt um kúrs, svo skýr var hann í afstöðu sinni og svo afdráttarlaus. Vissulega væri mjög gott ef hæstv. fjármálaráðherra fengist til að taka þátt í umræðum um málið á Alþingi. Enn betra væri þó, fremur en að hann taki að sér að svara spurningum fyrir hönd hæstv. utanríkisráðherra sem ekki hefur enn fundist, ef hæstv. fjármálaráðherra gengi í lið með okkur við að útskýra fyrir hæstv. utanríkisráðherra og félögum sínum í þingflokki Sjálfstæðismanna og í stjórnarliðinu í heild hvers vegna það er svo margt sem ber að varast í þessum þriðja orkupakka, því að hæstv. ráðherra, eins og við höfum heyrt, gerir sér fyllilega grein fyrir hversu varasamt þetta er og kallar þessa tilburði Evrópusambandsins í raun hneyksli, bendir á að þeir séu að reyna að færa sig upp á skaftið og hversu varasamt það geti verið fyrir okkur Íslendinga.

Ég hef tekið eftir því að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki tjáð sig mikið um málið, stöku sinnum lent í því að svara fyrirspurnum í fyrirspurnatíma ráðherra og þá jafnan kvartað yfir því að menn skuli ekki spyrja hæstv. utanríkisráðherra. Ég bind vonir við það að enn sé einhver von til þess að hæstv. ráðherra rifji upp fyrri málflutning sem hann rökstuddi svo vel og af svo miklum sannfæringarkrafti, hvort sem það er þetta viðtal sem ég las upp úr áðan eða ræður hæstv. ráðherra í þinginu, ég man t.d. eftir einni ræðu sem ég sá ástæðu til að hrósa honum sérstaklega fyrir eftir að hún var flutt. Þar var hann mjög afdráttarlaus um þetta sama efni.