149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get sagt fyrir sjálfan mig að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins myndi sannfæra mig á einu augabragði um að vera á móti orkupakka þrjú með þeim orðum sem hann notar í þessu viðtali. Ég myndi ekki efast eitt andartak. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað væri mikill fengur að því að hann gengi í lið með okkur og reyndi að vinda ofan af þessu máli okkur öllum til heilla.

Ég hef eins og hv. þingmaður tekið eftir því að í fyrirspurnum, óundirbúnum, um málið hefur hæstv. ráðherra sýnt nokkurt fálæti og tekið heldur fálega í spurningar um málið af einhverjum ástæðum og hefur verið tregur til svara og frekar önugur, að mér finnst. Það er kannski bara vegna þess að hann á í einhverri sálarkreppu með málið. Hafandi verið svona eindreginn eins og í þessu viðtali og víðar, þá líður honum kannski ekki vel með að hafa snúið svona gjörsamlega af leið eins og dæmin sanna.

Ég verð því að segja aftur að í sjálfu sér væri mjög athyglisvert, áhugavert og nauðsynlegt að eiga þess kost að eiga orðastað við hæstv. ráðherra og formann stærsta stjórnmálaflokks á Ísland um þetta mál og spyrja hann hreinlega: Hvað hefur breyst svona gjörsamlega? Hefur Evrópusambandið látið af þessari útþenslustefnu sinni? Eru þeir sem sagt hættir við að færa sig upp á skaftið gagnvart þeim sem þeir umgangast? Hafa þeir sýnt einhverja aðra breytni en undanfarin ár sem hefur orðið til þess að hæstv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur skipt svona gjörsamlega um kúrs? (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem við þyrftum endilega fá að heyra af, ekki satt?