149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:47]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig og fara eftir samningnum, er sérstaklega talað um það að í 93. gr. EES-samningsins segir, með leyfi forseta:

„Sameiginlegu EES-nefndina skipa fulltrúar samningsaðila. […] Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins“, þ.e. Evrópubandalagsins, „annars vegar og EFTA-ríkjanna“, Íslands, Liechtensteins og Noregs, „sem mæla einum rómi, hins vegar.“

Samningsaðilarnir eru tveir, það eru þessi þrjú ríki og svo Evrópubandalagið, en EFTA-ríkin þrjú skuli mæla einum rómi.

Til þess að uppfylla þetta ákvæði samningsins þarf að mæla einum rómi. Það hafa þessi ríki ekki gert, vegna þess að Ísland hyggst núna setja tvo fyrirvara, eftir því sem ég kemst næst, við eigum reyndar eftir að fá það skýrt hér af stjórnarliðum, en Noregur átta. Liechtenstein hefur á hinn bóginn enga fyrirvara.

Hvernig er hægt að skoða það sem svo að þarna mæli ríkin einum rómi? Ég get ekki betur séð, hv. þingmaður, en að ekki sé enn komin fullkomin sátt af hálfu EES, EFTA-ríkjanna, þannig að réttast væri og okkur væri sæmst að senda málið aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna þess að samningurinn kveður beinlínis á um að það sé gert og að þar sé reynt að finna niðurstöðu sem aðilar geta sætt sig við áður en slík innleiðing er gerð, og eftir að slík niðurstaða fæst sé raunverulega (Forseti hringir.) óhætt að innleiða slíka gerð.

Mig langar til að fá hugleiðingar (Forseti hringir.) hv. þingmanns um þetta mál.