149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég hef aðeins gert það í þessari umræðu að taka hér upp ummæli, viðræður, viðtöl, greinar eftir eldri stjórnmálamenn sem þekkja ekki flokkana sína lengur. Ég fór t.d. yfir grein Tómasar Inga Olrichs en svo hnaut ég um blogggrein eftir Hjörleif Guttormsson, fyrrverandi þingmann Alþýðubandalagsins og Vinstri grænna, ef ég man rétt — ég held að hann hafi náð því að sitja fyrir Vinstri græn — og fyrrverandi ráðherra. Ég held að ekki sé á nokkurn mann hallað þegar ég segi að við innleiðingu EES-samningsins á sínum tíma og samþykkt hans árið 1993 hafi enginn maður á þingi kynnt sér þann samning eins vel og ítarlega og gaumgæfilega og þáverandi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Hann rifjar upp á sögulegan hátt að samningurinn var samþykktur með 33 atkvæðum gegn 23 en sex sátu hjá. Þar á meðal var helmingur þingflokks Framsóknar og þrír Sjálfstæðismenn. Við sjáum að málefni EES hafa því alltaf verið umdeild á Íslandi, alveg frá byrjun. Það er ekkert nýtt að svo sé nú. Það er hins vegar skrýtið að það vantaði ekkert upp á umræðurnar 1993 en menn eru eitthvað feimnir við það núna.

Í grein Hjörleifs kemur fram að hann lagði fram tillögu til þingsályktunar um EES-samning og íslenska stjórnskipan og meðflutningsmenn Hjörleifs á þeim tíma voru engar smákanónur. Það voru þeir Steingrímur Hermannsson heitinn, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Ragnar Grímsson, þá hv. þingmaður, seinna forseti Íslands.

Upphafsorðið í þessari ályktun var þetta:

„Alþingi ályktar að setja á fót nefnd sex sérfróðra manna sem athugi hvort aðild að Evrópsku efnahagssvæði í því formi sem fyrir liggur í samningsdrögum nú eða síðar brjóti með einhverjum hætti gegn íslenskri stjórnskipun eða hvort gera þurfi breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins vegna fyrirhugaðs EES-samnings.“

Þessi tillaga komst aldrei til lokaafgreiðslu. Henni var nánast fleygt út. Hún fékk ekki afgreiðslu, hún fékk umræðu og var send til utanríkismálanefndar og dagaði uppi vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir afgreiðslu hennar.

Enn um EES-samninginn: Þegar hann er settur fram eftir þessa naumu atkvæðagreiðslu í þinginu er hann sendur þáverandi forseta Íslands og 35.000 manns báðu hana að synja samningnum, þ.e. synja undirskrift sem hún gerði ekki. Skömmu áður en þetta er gert hér setti Sviss EES-samninginn í þjóðaratkvæði þar og hann var felldur. Svisslendingar eru enn utan hans.

Þetta er um forsögu málsins og ég ætlaði reyndar ekki að dvelja svona lengi við hana heldur ætlaði ég að fara meira til nútímans og gera grein fyrir skoðunum Hjörleifs Guttormssonar á þessum þriðja orkupakka sem hann varar við, að ESB verði ekki færð yfirráð yfir auðlindum landsins í gegnum orkupakkann. Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu og Hjörleifur gagnrýnir mjög gaumgæfilega og skýrt, eins og hans er von og vísa, alla framkvæmd ríkisstjórnarinnar varðandi kynningu á þriðja orkupakkanum, á þingmálinu o.s.frv.

Nú sé ég að tími minn í þetta sinn er að verða búinn. Þetta eru náttúrlega allt of stuttar ræður þannig að ég verð að grípa ofan í viðhorf Hjörleifs til þessa samnings sem við erum núna að fara yfir, þessa pakka. Ég taldi hins vegar rétt, í ljósi þeirrar yfirburðaþekkingar sem Hjörleifur hefur á tilurð EES-samningsins, að fara lauslega yfir það sem hann setti svo vel fram og ég var að færa hér fram.