149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur áður komið fram í mínu máli að í sjálfu sér eru margir gallar á því að leggja fram svo veigamikið mál eins og þetta með þingsályktunartillögu. Þingsályktunartillaga verður ekki kostnaðarmetin á neinn hátt en það er hins vegar alveg ljóst að það hefur gríðarleg efnahagsleg áhrif að samþykkja þriðja orkupakkann. Það hefur áhrif sem streyma inn á hvert einasta heimili í landinu. Þess vegna er það í sjálfu sér, eins og ég segi, mjög illt að þetta skuli vera lagt upp og lagt fram svona. Ég tek eindregið undir það, sem hv. þingmaður segir, að auðvitað vantar okkur hagfræðilega úttekt á efnahagslegum áhrifum af þessum orkupakka.

Ég velti því bara fyrir mér, af því að nú er hæstv. forseti genginn hér til hásætis síns, hvort það kunni að vera að skortur á upplýsingum, m.a. af þessu tagi, hafi orðið til þess að þeir Sjálfstæðismenn sem höfðu mestar efasemdir um þetta mál fyrir mjög skömmu hafi snúist á sveif með því að þetta mál yrði hér afgreitt, þ.e. að þá hafi skorti nauðsynlegar upplýsingar um áhrif af því að samþykkja þennan gjörning.

Ég tek heils hugar undir þetta með hv. þingmanni. Okkur er brýn nauðsyn á því — og ekki bara okkur, þjóðin þarf að vita þetta — að vita hvaða efnahagsáhrif fylgja innleiðingu þessa pakka. Við höfum þegar talað um að innleiðingunni eins og hún er núna sett upp fylgi lagaleg óvissa þannig að við þurfum að sjálfsögðu að vita hvaða efnahagsáhrif eru af innleiðingunni.