149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:01]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hér ber allt að sama brunni. Þetta mál er lagt fram með algjörlega ófullnægjandi hætti. Þetta er órannsakað. Tökum nokkur dæmi. Leit stendur yfir að lagalega fyrirvaranum og við í Miðflokknum erum að reyna að hjálpa til í því efni. Við erum hér með lögfræðing, fyrrverandi lögreglustjóra og sýslumann, sem vinnur kappsamlega í því máli að leita að þessum fyrirvara eins og hann hefur birst í máli manna þannig að við erum að leggja okkur fram.

Ég leyfi mér að ítreka það sem ég hef haft orð á hérna nokkrum sinnum áður að þegar og ef þessi fyrirvari skyldi finnast liggur ekki fyrir nokkur einasta lögfræðileg álitsgerð um þjóðréttarlegt gildi slíks fyrirvara. Svona almennt og fyrir fram verður að segja að innleiðing á reglugerð Evrópusambandsins er innleiðing og henni verður ekki breytt. Innleiðingin er á reglugerðinni eins og hún kemur af skepnunni og það er grundvallarlögmál að landsréttur víkur fyrir þjóðarétti. Þetta vita allir sem hafa opnað bók í þjóðarétti.

Hér er mjög mikilvægt mál sem er órannsakað, hin efnahagslegu áhrif eins og við höfum verið að ræða. Auðvitað er bara ein spurning en hún er svo sannarlega mikilvæg: Hver yrðu áhrifin á raforkuverð? Þetta hefur geysilega þýðingu fyrir hag heimila og atvinnufyrirtækja. Það liggur ekki annað fyrir en að fótunum yrði kippt undan mikilvægum atvinnugreinum í landinu sem eru orkufrekar og myndu glata samkeppnisstöðu sinni ef svo fer fram sem horfir, að þessi orkupakki verði samþykktur með þeirri hækkun á raforkuverði sem kalla má fyrirsjáanlega.