149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er laukrétt hjá hv. þingmanni. Efnahagsleg úttekt á áhrifum af samþykkt pakkans myndi einnig eyða öllum efa, má ég segja misskilningi, vegna þess að nú nýlega birtu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins nánast samhljóða greinar þar sem þau láta að því liggja að samþykkt þessa pakka muni hafa áhrif til lækkunar á raforkuverði. Það er reyndar í mikilli mótsögn við þær afleiðingar sem urðu af innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans á Íslandi. Þar kemur enn að því sem þessi umræða hefur leitt fram þau dægur sem hún hefur staðið og hefur í sífellu dýpkað, herra forseti, og í sífellu batnað og í sífellu byggt undir þær efasemdir sem sem við höfum hér mörg um þennan orkupakka. Það sætir furðu að þeir sem mest bera samþykkt þessa pakka fyrir brjósti hafa ekki einu sinni setið í þingsal og fylgst með umræðum. Það er dálítið öðruvísi en þjóðin sjálf vegna þess að við vitum af viðbrögðum sem við höfum fengið utan af með ýmsu ýmsum hætti, skeytum, SMS-um og tölvupóstum, að þjóðin er að fylgjast með þessari umræðu. Hún hefur áhuga á henni, jafnvel um miðjar nætur erum við að fá hvatningu til að halda áfram að berjast og til þess að reyna að koma þeim sem eru fylgjendur þessa máls í skilning um hversu vont og vanbúið það er, herra forseti.