149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:11]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta eru ekki fyrirvarar, ég ætla að fullyrða það hér í ræðustól Alþingis að þetta eru ekki fyrirvarar. Þeir halda ekki, þeir hafa ekkert lagalegt gildi gagnvart samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og þeir hafa ekkert lagalegt gildi gagnvart innleiðingunni á orkupakka þrjú.

Hér er kannski bratt farið en ég skal fyrstur manna éta þessa fullyrðingu ofan í mig ef fylgismenn þessarar innleiðingar geta komið í ræðustól Alþingis og sýnt fram á það með efnislegum rökum og lögfræðilegum stuðningi að fullyrðing mín sé röng. Hér er kjörið tækifæri, hv. þingmenn, til að taka Miðflokksmann og gera hann að ómerkingi í pontu, í ræðustól Alþingis. Ég er búinn að vitna ítrekað í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og geri það hér enn og aftur.

Í 5. gr. segir:

„Samningsaðilar geta hvenær sem er vakið máls á áhyggjuefnum í sameiginlegu EES-nefndinni eða EES-ráðinu í samræmi við þær aðferðir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 92. gr. og 2. mgr. 89. gr. eftir því sem við á. “

Í 6. gr. segir:

„Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála (Forseti hringir.) Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.“

Ég held að það sé dauðafæri fyrir fylgismenn þessa orkupakka að koma hér og ómerkja orð mín.