149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fela staðreyndirnar? Ég þekki ekki alla þingmenn hér inni en nokkra þó og af góðu einu. Mig langar til að verjast þeirri hugsun að það sé vísvitandi verið að reyna að blekkja, en í það minnsta held ég að hér hafi verið hlaupið aðeins fram úr sér. Ég tel að vilji ákveðinna aðila, sem sennilega eru í hlutverki embættismanna, sé sá að innleiða orkupakkann í heild sinni og án takmarkana.

Til þess að það markmið geti náðst eru settir fyrirvarar við reglugerð í landslögum, ef fram heldur sem horfir. En hængurinn á því máli er sá að eftir innleiðingu er innleiðingin orðin löggjöf, hluti af EES-samningnum, sem er samningur sem lýtur þjóðarétti. Allur ágreiningur eða vafaatriði sem þar koma upp munu verða dæmd eftir þeim lögum en ekki eftir þeim fyrirvörum sem hér eru settir heima. Afar áhugavert lagaálit sem kom fyrir atvinnuveganefnd núna í morgun staðfestir þetta, í máli sem er brýnt og þarf að taka upp í þinginu, sem er hið (Forseti hringir.) svokallaða hráakjötsmál.