149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo og viðurkennist auðmjúklega að ég er ekki löglærður maður, þó að ég hafi setið á skólabekk um hríð í lagadeild í Háskóla Íslands. En ástæða þess að ég er að fara svona yfir þetta er sú að það eru lögfróðir menn, lögmenn og lögfræðingar, sem hafa sent á okkur mikið magn af gögnum. Það eru túlkanir og skýringar sem hafa hvatt mig til að rýna betur í þessi gögn. Sumir þeirra hafa leyft að vera nafngreindir, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á, en aðrir hafa ekki viljað, stöðu sinnar vegna, vera nafngreindir hér. Það er skiljanlegt vegna þess að þeir eru í þannig stöðu að kannski er ekki við hæfi að þeir skipti sér með beinum hætti af stjórnmálum.

En varðandi þetta dýpra valdframsal er það svo að stjórnarskrá Íslands er þögul um það hver heimildin sé til að framselja völd. Í þessari innleiðingu er alveg ljóst að verið er að framselja vald og það er skýrt afmarkað að því leyti hvað skuli gera. En heimildirnar sem þessari stofnun og stofnunum eru fengnar eru hins vegar ekki skýrt afmarkaðar. Þetta eru opin lagaákvæði, svokölluð. Það er ekki algerlega bundið hvað verið er að framselja og (Forseti hringir.) að hversu miklu leyti, sem gerir að verkum að þetta er það sem kallað er stjórnskipunarvandi. Það er hæpið að þetta standist stjórnarskrá.