149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir bæði forseta og okkur öll vitna hér í þennan lögspeking sem ég færði til bókar áðan, Eyjólf Ármannsson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ber að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Ótti við slíkt er hættulegur samstarfinu. Stór hluti þriðja orkupakkans hefur ekki gildi fyrir Íslandi líkt og orkumálastjóri ESB og utanríkisráðherra hafa lýst yfir og mikilvægt er að það komi fram í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Nefndin færi varla að komast að öðrum skilningi enda sitja þar undirmenn ráðherrans og orkumálastjórans; sendiherrar Íslands, Noregs og Liechtensteins EFTA-megin og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB. Þetta yrði í fyrsta sinn í 25 ára sögu EES-samningsins sem hinn stjórnskipulegi fyrirvari væri nýttur og máli vísað aftur til nefndarinnar, enda í fyrsta sinn sem ætlunin er að færa helstu náttúruauðlind Íslands undir erlent eftirlit og regluverk innri raforkumarkaðar ESB sem landið er ekki hluti af.“

Ég segi bara, herra forseti: Getur þetta orðið öllu skýrara? Ég held ekki. Mig langar að biðja hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson að gaumgæfa þessi orð lögspekingsins sem ég færði fram. Ég spyr hann hvort hann sé ekki algerlega enn þá bjargfastur á þeirri skoðun að það sé akkúrat þetta sem við eigum að gera. Við eigum ekki að vera hrædd við að efna EES-samninginn allan. Við eigum ekki bara að lesa úr honum eins og af hlaðborði og þora ekki að nýta okkur þær greinar sem fjalla beinlínis um að við getum skotið málum til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ekki satt?