149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum þá sammála um að það sé viðbúið að stuðningur við EES-samninginn muni minnka og veikjast verulega ef mál eins og það sem hér er til umræðu nær fram að ganga.

En það er önnur hlið á þessu varðandi 102. gr. sem ég hefði áhuga á að heyra álit hv. þingmanns á. Það snýr að fullyrðingum manna um að við eigum ekki að nýta þessa grein sem lýsir sáttameðferð og leitinni að bestu niðurstöðu fyrir alla, vegna þess að við höfum ekki nýtt hana áður. Þetta eru rök sem snúast að mínu mati líka upp í andhverfu sína ef menn líta á staðreyndir málsins. Ef við ætlum að samþykkja þennan rökstuðning erum við jafnt og þétt að veikja möguleika í framtíðinni á að nýta þá grein. Við erum að segja að þar sem hún hafi ekki verið nýtt ákveðið lengi eigi ekki að nýta hana. Hvað þá þegar enn lengri tími er liðinn án þess að hún hafi verið nýtt? Þá mun sama fólk væntanlega telja sig hafa enn sterkari rök fyrir því að það eigi ekki að nýta hana.

Til að halda þessari grein virkri myndi ég halda að það sé einmitt mikilvægt að nýta hana þegar tilefni er til og þar með minna á að hún sé til staðar og ekki að ástæðulausu.

Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að rétt eins og það myndi styrkja EES-samninginn að við nýttum ákvæði hans til að verja rétt okkar og hagsmuni myndi það styrkja þessa tilteknu grein að nýta hana, sýna að hún sé þarna af ástæðu?