149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ræðu sem hann flutti. Það er eftirtektarvert að margir þungavigtarmenn og fyrrum þungavigtarmenn, t.d. í stjórnmálaflokki þeim sem hæstv. forseti skipar, vara mjög við því að við tökum upp þennan þriðja orkupakka Evrópusambandsins — menn sem eru hoknir af reynslu, menn sem voru viðstaddir þegar orkupakki eitt og tvö voru innleiddir, menn sem vilja læra af reynslunni, menn sem vilja læra af mistökunum.

En þetta er ekki allt, herra forseti. Það sem skiptir höfuðmáli er að samkvæmt nýlegri könnun eru 63% þeirra sem afstöðu tóku á móti þessum pakka, 63% þjóðarinnar. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé sammerkt þeim sem styðja þennan orkupakka að þeir ætli ekki að bjóða sig fram aftur í pólitík, séu bara á leiðinni út. Þess vegna telji þeir sig ekki þurfa á því að halda að hlusta á þjóðina.

Það skýtur mjög skökku við að menn skuli leggja slíka ofuráherslu á að troða þessum pakka, eins og hann er nú vanreifaður og illa búinn, í gegnum þingið á methraða í staðinn fyrir að hlusta á menn eins og Jón Baldvin Hannibalsson, Davíð Oddsson, Tómas Inga Olrich, Hjörleif Guttormsson — ég gæti talið lengi áfram, menn úr öllum flokkum. Þetta eru ekki pólitískir vinir, þetta eru menn úr öllum flokkum sem vara við þessum gjörningi. En menn halda áfram að lemja hausnum við steininn lengi. (Forseti hringir.) En eins og ég segi: Kannski er þetta fólk bara búið að fá leið á pólitík og er á leiðinni eitthvert annað.